Leikskólaleit

Verkefni síðustu viku var að koma jólapökkunum af stað til Íslands og í þessari viku er það leikskóli fyrir Þórarinn. Ég var búin að skoða heilmikið á internetinu og hringja á nokkra staði og var búin að finna tvo staði þar sem var laust pláss fyrir hann. Við fórum svo í gær og skoðuðum þessa tvo leikskóla. Sá fyrri var rétt við hliðina á líkamsræktinni og frekar nálægt CCP og okkur leist ágætlega á hann. Hinn var alveg í hina áttina frá vinnunni en þar var rólegra umhverfi, betra útisvæði, hreinlegra og bjartara húsnæði. Þannig að við erum eiginlega búin að ákveða að láta hann í þennan seinni. Við sáum reyndar ekki kennarana hans þar sem þeir voru ekki við í gær en við ætlum að koma við aftur á fimmtudaginn eða föstudaginn og hitta þær.

Helgin fór í barnaafmæli á laugardaginn og matarboð á sunnudaginn. Emilía og Hafþór eiga bæði afmæli í desember og þar sem fjölskyldan fer til Íslands yfir jólin var haldið sameiginlega upp á afmælin með tonni af frábærum veitingum. Á sunnudaginn buðum við svo júdóþjálfaranum og fjölskyldu hennar í mat. Við ætluðum að hafa eitthvað Íslandslegt og fundum lambalæri (reyndar ástralskt) sem við elduðum. Þetta var ágætt.

Þá er líklegast kominn tími til að skipuleggja jólaundirbúninginn. Já ég veit ég er nú frekar sein í þessu, fyrsti jólasveinninn að koma bara annað kvöld... 


Fyrsti desember

Er það ekki ellimerki þegar börnin eru farin að þurfa að opna krukkurnar fyrir mann? Ja þá er ég hrædd um að ég sé farin að verða gömul; Ásþór þurfti að opna fyrir mig vanilludropana í pönsurnar í dag.

Ég er nú ekki í miklu jólaskapi enda eigum við ekkert skraut eða neitt hér ennþá. Við erum samt búin að versla nánast allar jólagjafir sem þarf að senda til Íslands og það síðasta ætla ég að klára á morgun. Við erum nú bara nokkuð tímanlega í ár (hmm, sem sagt ekki alveg á síðustu stundu eins og vanalega). Það var fimm daga helgi núna síðast og ég notaði bæði föstudag og laugardag til að versla. Ekki veitti af tímanum þar sem ég er ekki góður sjoppari og þarf alltaf fjórum sinnum lengri tíma en aðrir til að ákveða mig eða kaupa eitthvað yfirleitt...  

Thanksgiving var síðastliðinn fimmtudag. Þá koma yfirleitt stórfjölskyldur saman og borða kalkún með sósu og cranberrysultu, og graskerspæ á eftir. Við vorum boðin í svona hefðbundinn mat til Ben og fjölskyldu en hann vinnur með Rúnari. Maturinn var mjög góður og við spjölluðum og spiluðum fram eftir kvöldi. Næsta kvöld var okkur boðið í afmælið hennar Þóru. Þar var mikið spilað og sungið og við gleymdum alveg tímanum en skemmtum okkur stórvel. Þórarinn sofnaði í fanginu á mér undir söngnum en Ásþór var að spila tölvuleik með Jökli og var en vakandi þegar við fórum heim en orðinn dauðþreyttur. 

Jæja best að fara að elda mat handa júdóköppunum en þeir koma heim eftir um hálftíma. 

 


Afmæli og ýmislegt

Nú er litli strákurinn minn orðinn fimm ára. Við héldum upp á afmælið á laugardaginn og allir íslendingarnir sem eiga börn mættu. Það tókst vel.

Á sunnudaginn vorum við svo boðin í mat til bekkjarfélaga Ásþórs. Þangað kom líka annar vinur hans og fjölskylda og tveir trúboðar úr öðru fylki. Þetta var greinilega trúrækið fólk því farið var með borðbæn fyrir matinn og bæði fyrir og eftir kvöldvökuna. Það mátti heyra saumnál detta þegar Rúnar sagði að hann væri trúleysingi en hann heillaði alla upp úr skónum með því að spila á skemmtilegt argentískt strengjahljóðfæri (sem enginn hafði áður fengið lag úr) og ræða við trúboðana um heimsmynd sína. Mér fannst þetta nú frekar forvitnilegt og krakkarnir skemmtu sér vel.

Í gær var svo alvöru afmælisdagurinn. Við gerðum nú ekki mikið í tilefni dagsins en þó voru eftir tveir pakkar og var mikil gleði með það. Annars fór dagurinn í að fara í ræktina, fara í heimsókn til Þóru og svo var júdótími um kvöldið.

Nú er thanksgivinghátíðin á næsta leiti og þess vegna er frí í skólum miðvikudag, fimmtudag og föstudag í þessari viku. Ásþór hlakkar mikið til.

Jæja ég er að fara að þrífa en það er afsökunin mín fyrir að fara ekki í ræktina í dag. Verð víst að standa við það.


Mynd síðan á sunnudaginn

��rarinn og �s��r �ti � leikvelliÞessi mynd var tekin úti á leikvelli á sunnudaginn.

Helloweenhelgi

Það var mikið um að vera um helgina hjá okkur. Á föstudaginn var Helloween og auðvitað fórum við út í trick or treat. Ég var nú svo gáfuð að elda mat fyrst svo að það yrði borðað eitthvað annað en nammi. Svo drifu þeir sig í búningana og við fórum út svona upp úr kl sjö. Við gengum um þessa tvo botnlanga hérna í götunni okkar og fengum fullt af nammi þó að það væri slökkt í mörgum húsum og nokkrir komu ekki til dyra þegar við hringdum. En við vorum einu krakkarnir á ferðinni!!! Allar þessar eldri konur voru himinlifandi glaðar að fá að gefa nammið sitt. Og við sitjum uppi með allt nammið sem ég keypti líka... Þegar við komum inn um kl hálf níu, ákváðum við að horfa á mynd með namminu. Mmmm mjög fínt.

Næsta morgun var svo júdómót hjá Ásþóri svo að við drifum okkur af stað kl hálf níu til að vera mætt á réttum tíma. Hann keppti í tveimur flokkum; sínum aldursflokki og svo sínum þyngdarflokki en þar voru krakkarnir tveimur árum eldri og tuttugu sentimetrum hærri. Hann náði að vinna allar glímurnar í sínum aldursflokki en náði reyndar ekki að vinna neina í hinum flokknum. En þetta var mjög fínt. Rosaflottur verðlaunapeningur.

Í gær fórum við út á leikvöll í góða veðrinu en það var miklu hlýrra en hefur verið og við vorum strax komin úr peysunum. Þóra og stelpurnar og foreldrar hennar komu svo til okkar og við fórum saman út að borða í Decatur sem er sætur bær nálægt Atlanta downtown. Það var skemmtilegt að labba þarna um og klukkan var orðin hálf sex þegar við komum heim. Reyndar er líka kominn vetrartími svo að nú er fimm tíma munur á okkur og íslandi.


Grasker

Núna er Rúnar á Íslandi svo að við erum bara þrjú hérna í kotinu. Í gær fórum við heim til Þóru að skera grasker. Það var hálfgerð sláturstemming hjá okkur; sex konur, sex krakkar og tvennir afar og ömmur sem eru í heimsókn um þessar mundir. Rosa stuð.

Rúnar er vanur að fara með strákana í júdó tvisvar í viku en fyrst hann er á Íslandi fer ég með þeim. Ég fer greinilega of sjaldan. Þórarinn er orðinn mjög duglegur, eltir bróður sinn hvert fótmál og gerir allar æfingarnar af einbeitni. Hinir litlu krakkarnir eru reyndar frekar erfið, nenna ekkert að æfa brögðin og eru alltaf eitthvað að kvarta svo að ég reyni að vera nálægt honum, líka til að þýða ef hann skilur ekki hvað hann á að gera. Engar áhyggjur þarf að hafa af Ásþóri en hann skilur mestallt og er mjög góður júdómaður. (Skellti pabba sínum víst um daginn:) Hann er að fara á mót á laugardaginn hérna skammt frá. Í þetta skipti verða fleiri úr hans klúbbi og þjálfarinn líka. Það verður gaman.


Fréttir

Það er helst í fréttum... (fyrir utan að allir peningar í heiminum eru horfnir og Ísland er orðið verslunarparadís útlendinga) er að við lentum í alvöru íslensku partíi um helgina; með gítarspili, póker og öllum græjum. Heppilegt að Þóra og Pétur búa í svona rúmgóðu húsi. Nóg pláss var fyrir alla að sofna þegar þreytan fór að segja til sín. Við komum svo ekki heim fyrr en um kvöldið þar sem ég var að passa Emblu og Eygló meðan hjúin fóru í golf á sunnudaginn.

Nú er helloween á næsta leiti og allt fullt af grímubúningum, graskerjum, fuglahræðum og nornum. CCP verður með grillbúningapartí á föstudaginn svona til að taka forskot á sæluna. Þóra er svo búin að bjóða strákunum með sér á krakkagrímuball á laugardaginn svo að það verður heilmikið um að vera.

Og það er komið haust hér. Ég er farin að kynda á nóttunni og laufin farin að skipta litum og falla. Þetta eru auðvitað gamlar fréttir á Íslandi þar sem er kominn snjór...

 


Mynd

Str�karnir � ni�urp�kkun Hér er skemmtileg mynd af strákunum og Rúnari síðan í júlí (ennþá á Íslandi). Ég var líka að setja inn nokkrar fleiri myndir síðan í sumar í myndaalbúm hér á síðunni. Er svona að prófa mig áfram með þetta.


Föstudagur

Er að hlusta á 500 bestu rokklög allra tíma að mati Rollings Stones tímaritsins og ég er nokkuð sammála.  Þarf líka að reyna að klára þýðinguna sem ég er með; 15 bls um útboð af íslensku yfir á norsku. Þetta tekur mig alltof langan tíma. Þórarinn er að verða frekar leiður á mér held ég. Hann er nú samt búinn að vera ótrúlega duglegur að leika sér meðan ég heng yfir þessu. En góðu fréttirnar eru að ég fæ borgað í norskum krónum. Hvað ætli 4200 nkr séu margar isk núna?


Júdómót

Um síðustu helgi fórum við með Ásþór á júdómót eftir að hafa skipt á bílnum. Við vorum ekki nógu ánægð með þennan stóra Pontiac (þó aukahlutirnir væru mjög freistandi):) Hann eyddi miklu bensíni (sem er nú ekki alveg það sem maður er að leita að á tímum bensínskorts og himinhás verðs), hlaup í stýrinu sem ágerðist og grunsamleg hljóð í viftunni. Nei hann varð að fara. Í staðinn fengum við okkur lítinn og sætan, sparneytinn Ford Focus. Hann reyndist okkur mjög vel í ferðalaginu um síðustu helgi og fór ca 40 mílur á gallon. ( hmmm... er ekki búin að reikna yfir í km á líter eða lítra á hundraðið... en þetta er mjög ásættanleg eyðsla.)

Waynesville í North Carolina er mjög fallegur bær. Hann stendur upp í skógi vöxnum fjöllum og nokkuð bröttum sumstaðar (kannski ekki mikið þegar maður hefur keyrt um norsku firðina). Við komum þangað klukkan 10 um kvöldið, glorhungruð og fórum beint að borða á fyrsta stað sem við sáum þegar búið var að tjekka inn og hlaupa nokkrum sinnum í kringum mótelið. Strákarnir voru auðvitað alveg búnir á því þegar þeir komust loks í rúmið. Næsta morgun byrjuðum við á að skrá Ásþór á júdómótið og höfðum svo tíma til að skoða okkur aðeins um í bænum. Keppnin byrjaði svo klukkan 11 með yngstu keppendunum. Það var rosa harka í flestum keppendum og mörg fín köst. Ásþóri gekk nokkuð vel. Hann keppti í tveimur flokkum; sínum aldursflokki og svo við eldri krakka. Hann náði þriðja sætinu í þeim seinni en vann allar glímurnar í sínum aldursflokki og fékk gull þar. Ekki ónýtt að koma heim með gull og brons.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rúnar og María
Rúnar og María
Þetta blogg er á vegum Maríu Huldar og Rúnars Þórs sem eru stödd í Atlanta í Bandaríkjunum á vegum CCP.

Nýjustu myndir

  • risahamborgari
  • medalíudrengir
  • verðlaunapeningar
  • Þórarinn og Ásþór úti á leikvelli
  • Strákarnir í niðurpökkun

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 408

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband