Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Bílpróf

Þá er bílprófið í höfn. Við fórum sem sagt í gær og tókum það. Þórarinn fékk að vera hjá Þóru og við Loki fékk með sér lykil að húsinu svo hann  kæmist inn ef við yrðum lengi. Svo skiptum við um bíl við Pétur þar sem maður þarf að skaffa bíl sjálfur og ekki gekk að taka prófið á bílaleigubíl (vegna trygginganna). Til að gera langa sögu stutta tók þetta allan daginn og fór mestur tíminn í að sitja á óþægilegum appelsínugulum stólum og bíða eftir að ökukennari yrði laus sem gæti prófa ökufærni okkar. Rúnar fékk hrós frá sínum prófdómarar en karlinn sem prófaði mig var hundleiðinlegur og alltaf að jagast eitthvað (af hverju gerirðu svona..., þú átt að gera svona)  og að lokum sagðist ætla að fella mig. Sagði að ég þyrfti að æfa mig betur að keyra í USA, þetta væri sko ekkert Ísland. Ég var nú bara hundfúl og sagðist ekki vera sammála honum. Væri búin að vera með bílpróf í 15 ár og gæti alveg keyrt. Ömurlegt að þurfa að eyða aftur heilum degi í að taka það aftur eftir nokkra daga. Sem betur fer sá hann sig um hönd og leyfði mér að ná. Honum tókst nú samt að skaða sjálfstraust mitt í umferðinni (í bili allavega).

 Nú getum við farið að skoða það að kaupa bíl en án bandarísks ökuskírteinis eru bílatryggingarnar ofurdýrar. Það verður gott að geta skilað bensínháknum bílaleigubílnum sem við erum með. 


Næturgöltur

María hefur verið dugleg við að skrifa, þannig að best að maður hendi smá testósteróni í bloggið. Göltur næturinnar! Súperflott heiti.

Loki (áður þekktur sem Ásþór)  kom fram í stofu fyrir smá stundu síðan gangandi í svefni og tókst á nokkuð löngum tíma að brjóta svefnmúrinn með því að minna mig á að gá hvort við unnum Gimla og Star Wars fígúrur á Ebay í kvöld. Svo hné hann steinsofandi í sófann. Alveg merkilegt hvað þetta hefur verið honum ofarlega í huga :) Allavega við unnum, gaman að því.

Hvað er ég annars að gera klukkan að ganga þrjú að nóttu - Ég er að skrifa um ferðina til Austin GDC (Game Developers Conference). Mjög gagnleg ráðstefna að mínu mati - Beggars can´t be choosers, þetta er sennilega lang gagnlegasta ráðstefnan fyrir MMO developera sem haldin er í heiminum, þannig að þótt ég væri chooser væri sennilega ekki mikið til að vera ósáttur við.

Almenna niðurstaðan er að CCP Rokkar Feitt og er öfundað af svo rosalega mörgum í bransanum að það er alveg makalaust.

Allavega, nóg um vinnuna. Ég henti saman texta fyrir Trassana í gær og sendi Bjössa yfir netið. Við endum alltaf einhvernveginn á því að vinna saman í fjarvinnu. Ég neyddist til að segja mig úr lögum við verkefnið okkar Óla Stefáns og Þorvaldar í bili þar sem það er engin leið til að halda því dýnamíska ferli gangandi sem þarf að vera til staðar svo eitthvað af viti komi úr þessu frá mínum bæjardyrum. Alger synd en svona er þetta.

Gangan í vinnuna er alveg snilld, byrja morgnana á því og léttri líkamsrækt í lyftingatækjunum á CCP Atlanta og hendist svo í sturtuna þar. Talsverður munur á því og að mygla í bílnum í hálftíma og hakka í sig egg og beikon eins og svo margir væntanlegir kransæðaklesstir samstarfsmenn mínir. Annars mun ég nú reyndar áreiðanlega drepast á undan þeim úr því, þannig að allir geta verið ánægðir með sinn hlut!

Við tókum Arkham Horror um helgina og mikið andskoti er það skemmtilegt. Við komum í veg fyrir að Hastur kæmist í gegnum hliðin. Þrátt fyrir að við stefndum að spunaspili komum við því reyndar ekki við  en það er um að gera að taka upp þráðinn þar sem fyrst. Held við höfum verið að stefna á þriðjudagskvöldið fyrst helgin fór í annað. Stuð í því. Loki er alveg ofboðslega spenntur eftir næsta kvöldi, ég held hann sé búinn að búa til fjórar persónur í Askinum (bæði þeim gamla og nýja).

Þórarinn er alveg á úrvalsaldri fyrir nýja barnaspilið okkar Maríu og stefnan er að uppfæra reglurnar og smala saman slatta af krökkum í frekari prufuspilun. Annars er Þórarinn alveg makalaust glaður og bjartur lítill drengur. Hann er þannig að sama hvað á bjátar (sem kemur nú oft upp úr þurru) þá er það gríðarlega fljótt að gleymast, hjálpi maður honum við það eitt að skipta um sjónarhorn á því. Vont verður gott, leiðinlegt verður skemmtilegt, sorg verður taumlaus gleði.

Verð að halda áfram með vinnuna, á aðeins eftir ca. 10 fyrirlestra...


Komið og farið

Á mánudaginn kom dótið sem sent var frá Íslandi. Þórarinn var búinn að vera voða spenntur að sjá dótið sitt og það urðu fagnaðarfundir þegar Jack Sparrow og sjóræningjaskipið voru tekin upp. Anna Rut og Tóta komu hingað til að taka við sínu dóti. Anna og Húni eru reyndar ekki búin að fá húsið sitt og fá að geyma kassana í bílskúrnum okkar þangað til.

Rúnar er því miður ekki heima en hann er í Austin Texas í nokkra daga á ráðstefnu. Kemur í dag.

Þriðjudagurinn fór í að taka upp úr kössunum og raða í allar tómu hillurnar. Nú eru þær frekar fullar. Í gær fórum við Þórarinn svo í Discover Mills mollið með stelpunum (Þóru, Önnu Rut, Tótu og Arndísi) og öllum litlu krökkunum (Eygló Þóru, Hafþóri og Emilíu, Herði Val og Svölni). Þetta varð svaka hópferð og ágætistími.


Húrra

Social Security númerið hans Rúnars er komið svo næst er að taka amerískt bílpróf Smile

Húsið og öndin

Húsið sem við leigjum hér er brúnt timburhús á einni hæð. Það er nú frekar gamalt en hefur þó verið haldið sæmilega við; voru til dæmis sett ný teppi og einhverjir veggir málaðir áður en við fluttum inn. í stofunni og eldhúsinu er rosalega mikið af skápum sem hentar okkur ágætlega (með alla okkar blaða og bókastafla sem endranær). Það er líka áberandi mikið af speglum. Við erum með tvö baðherbergi (annað gult og hitt hvítt). Það besta við húsið er samt veröndin sem er stór með þaki yfir að hluta sem myndar vel þeginn skugga. Svo erum við að setja upp flugnanetstjald til að sleppa við mosquitobitin (sem við Ásþór höfum fengið að finna fyirir). Garðurinn er stór og nóg af trjám og dýrum (bambus og eitt eplatré, þyrnirunnar og nóg af íkornum og fuglum).

Staðsetningin er frábær. Við erum svona 10 mín að labba í skólann hans Loka, 30 mín í Mountain Park Park þar sem er næsti leikvöllur og Rúnar er 35 mín ef hann fer gangandi í vinnuna. Næsta matvörubúð er á leiðinni á CCP og tekur ca 5 mín að keyra í hana. Pétur og Þóra eru svo aðeins lengra eða kannski 15 mín að keyra.

Við höfum ekki orðið mikið vör við nágrananna fyrir utan öndina í næsta húsi. Hún kemur alltaf kvakandi á móti okkur þegar við komum heim og er orðin góð vinkona Þórarins.

 


Heimavinnandi

Það er svolítið merkilegt að koma úr stressfullri Reykjavík þar sem vinnan á huga allra í 8+ klukkutíma á dag. Hér er ég heimavinnandi sem þýðir að ég verð að finna mér nýjan rytma í daginn. Það gengur víst tæplega til lengdar að leggjast bara aftur upp í og sofa :)

Nei, nei svona eru nú bara sumir dagar... 


Atlanta í ágúst

Síðustu vikurnar hafa farið í að koma okkur fyrir. Strax daginn eftir að við komum fórum við í heimsókn í skólann hans Ásþórs og skráðum hann inn. Tveimur dögum síðar var opið hús þar sem krakkarnir gátu komið og hitt kennarann og skoðað skólastofuna. Þá hitti Ásþór sérkennarann og var skráður í bekk. Skólinn byrjaði svo mánudaginn þar á eftir.

Fyrsta daginn skoðuðum við líka húsið sem við vorum búin að leigja áður en við komum. Við gátum þó ekki flutt inn strax þar sem við áttum engin rúm. Við keyptum þau reyndar næsta dag í Mattress Firm af ógurlega yfirborðskenndum sölumanni. Þrátt fyrir auglýsingar um heimsendingar samdægurs á rúmum fengum við okkar ekki fyrr en viku síðar. Svo að við "neyddumst" til að vera hjá Þóru og Pétri þangað til. Sem var fínt. Við gátum notað þessa daga til að koma vatni, gasi og rafmagni á húsið. Vatnið er reyndar hjá opinberri stofnun svo að það var bara að bíða í símanum í hálftíma og þá var það komið. Við keyrðum nú bara á skrifstofu rafmagnsfyrirtækisins og eftir að hafa lagt fram fyrirframgreiðslu var allt í góðu þar. Það var hins vegar aðeins erfiðara með gasið. Flest fyrirtækin vildu gera kredittjekk sem þýðir að þau kanna hjá bankanum og jafnvel öðrum fyrirtækjum sem maður er í viðskiptum við hvort manni sé treystandi. Við vorum auðvitað hvergi á skrá og auk þess ekki komin með social security númer svo það gekk ekki. Það endaði með því að Rúnar hringdi og bauð þeim að borga nokkur hundruð dollara fyrirfram og þá gekk það upp.

CCP var búið að undirbúa jarðveginn í bankanum svo að þar var tilbúinn pakki sem við gátum gengið inní þ.e. opnað reikninga og fengið kort... og ávísanir. Kanarnir eru aðeins á eftir okkur í þessum banka- og peningamálum. Þeir eru enn á ávísanatímanum. Jú reyndar opnuðum við heimabanka á netinu þar sem maður getur borgað reikninga; það er bara nokkurra daga bið á að greiðslan gangi í gegn.

Svo er það social security númera ævintýrið. Við fórum auðvitað á viðeigandi skrifstofu og sóttum um eins og lög gera ráð fyrir. Ekki var hægt að sækja um fyrir börnin þar sem þau hafa ekki atvinnuleyfi hér. Þegar við komum heim frá því rákum við augun í að starfsmaður immigration á flugvellinum í Boston hafði gert mistök þegar við komum inn í landið og ruglað saman mikilvægum hvítum miðum sem heftaðir eru inn í vegabréfin. Þórarinn Rúnarsson var því komin með atvinnuleyfi gat sótt um social security númer en Rúnar Þórarinsson ekki. Rúnar brenndi til baka á skrifstofuna næsta dag til að láta vita af þessu en þá var honum bent á að fylla út eyðublað um nákvæmlega þetta og fara í útlendingaeftirlitið (immigration) til að láta þá leiðrétta mistökin. Þegar þangað kom var honum vísað áfram á flugvöllinn þar sem menn þar á bæ ættu að breyta þessu í tölvunum hjá sér. Eftir viðskipti við ofur dónalegan starfsmann á flugvellinum átti þetta að vera komið inn í tölvukerfið eftir 7-10 daga og þá ætti hann að geta sótt um social security númer aftur. Það er ekki komið enn.


Höfundur

Rúnar og María
Rúnar og María
Þetta blogg er á vegum Maríu Huldar og Rúnars Þórs sem eru stödd í Atlanta í Bandaríkjunum á vegum CCP.

Nýjustu myndir

  • risahamborgari
  • medalíudrengir
  • verðlaunapeningar
  • Þórarinn og Ásþór úti á leikvelli
  • Strákarnir í niðurpökkun

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 411

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband