Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Þriðjudagur 16. desember

Jæja jæja, tíminn líður.

Þórarinn fór í fyrsta skipti í nýja leikskólann í dag. Þau vildu ekkert að ég væri með honum svo að við fórum bara með hann kl hálf átta og ég náði svo í hann kl 14:15. Ég var auðvitað með símann í hendinni allan tímann ef þau skyldu hringja. Dagurinn hafði gengið í meginatriðum vel nema þegar þau áttu að fara út þá fór minn að skæla og langaði heim en þá var líka bara smá stund þangað til dagurinn væri búinn. Hann sagðist ekki hafa viljað leika við krakkana og vildi bara sitja við borðið. Það verður spennandi að sjá hvernig hann verður á morgun. Svo eru þetta bara þrír dagar núna og þá er komið jólafrí. Hann byrjar svo aftur þann fimmta jan.

Annars er nú aðeins að verða jólalegt hjá okkur; komnar seríur og kerti. Svo er ég búin að gera tvö smákökudeig sem bíða eftir að ofninn verði laus.


Leikskólaleit

Verkefni síðustu viku var að koma jólapökkunum af stað til Íslands og í þessari viku er það leikskóli fyrir Þórarinn. Ég var búin að skoða heilmikið á internetinu og hringja á nokkra staði og var búin að finna tvo staði þar sem var laust pláss fyrir hann. Við fórum svo í gær og skoðuðum þessa tvo leikskóla. Sá fyrri var rétt við hliðina á líkamsræktinni og frekar nálægt CCP og okkur leist ágætlega á hann. Hinn var alveg í hina áttina frá vinnunni en þar var rólegra umhverfi, betra útisvæði, hreinlegra og bjartara húsnæði. Þannig að við erum eiginlega búin að ákveða að láta hann í þennan seinni. Við sáum reyndar ekki kennarana hans þar sem þeir voru ekki við í gær en við ætlum að koma við aftur á fimmtudaginn eða föstudaginn og hitta þær.

Helgin fór í barnaafmæli á laugardaginn og matarboð á sunnudaginn. Emilía og Hafþór eiga bæði afmæli í desember og þar sem fjölskyldan fer til Íslands yfir jólin var haldið sameiginlega upp á afmælin með tonni af frábærum veitingum. Á sunnudaginn buðum við svo júdóþjálfaranum og fjölskyldu hennar í mat. Við ætluðum að hafa eitthvað Íslandslegt og fundum lambalæri (reyndar ástralskt) sem við elduðum. Þetta var ágætt.

Þá er líklegast kominn tími til að skipuleggja jólaundirbúninginn. Já ég veit ég er nú frekar sein í þessu, fyrsti jólasveinninn að koma bara annað kvöld... 


Fyrsti desember

Er það ekki ellimerki þegar börnin eru farin að þurfa að opna krukkurnar fyrir mann? Ja þá er ég hrædd um að ég sé farin að verða gömul; Ásþór þurfti að opna fyrir mig vanilludropana í pönsurnar í dag.

Ég er nú ekki í miklu jólaskapi enda eigum við ekkert skraut eða neitt hér ennþá. Við erum samt búin að versla nánast allar jólagjafir sem þarf að senda til Íslands og það síðasta ætla ég að klára á morgun. Við erum nú bara nokkuð tímanlega í ár (hmm, sem sagt ekki alveg á síðustu stundu eins og vanalega). Það var fimm daga helgi núna síðast og ég notaði bæði föstudag og laugardag til að versla. Ekki veitti af tímanum þar sem ég er ekki góður sjoppari og þarf alltaf fjórum sinnum lengri tíma en aðrir til að ákveða mig eða kaupa eitthvað yfirleitt...  

Thanksgiving var síðastliðinn fimmtudag. Þá koma yfirleitt stórfjölskyldur saman og borða kalkún með sósu og cranberrysultu, og graskerspæ á eftir. Við vorum boðin í svona hefðbundinn mat til Ben og fjölskyldu en hann vinnur með Rúnari. Maturinn var mjög góður og við spjölluðum og spiluðum fram eftir kvöldi. Næsta kvöld var okkur boðið í afmælið hennar Þóru. Þar var mikið spilað og sungið og við gleymdum alveg tímanum en skemmtum okkur stórvel. Þórarinn sofnaði í fanginu á mér undir söngnum en Ásþór var að spila tölvuleik með Jökli og var en vakandi þegar við fórum heim en orðinn dauðþreyttur. 

Jæja best að fara að elda mat handa júdóköppunum en þeir koma heim eftir um hálftíma. 

 


Höfundur

Rúnar og María
Rúnar og María
Þetta blogg er á vegum Maríu Huldar og Rúnars Þórs sem eru stödd í Atlanta í Bandaríkjunum á vegum CCP.

Nýjustu myndir

  • risahamborgari
  • medalíudrengir
  • verðlaunapeningar
  • Þórarinn og Ásþór úti á leikvelli
  • Strákarnir í niðurpökkun

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband