Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
31.10.2008 | 03:27
Grasker
Núna er Rúnar á Íslandi svo að við erum bara þrjú hérna í kotinu. Í gær fórum við heim til Þóru að skera grasker. Það var hálfgerð sláturstemming hjá okkur; sex konur, sex krakkar og tvennir afar og ömmur sem eru í heimsókn um þessar mundir. Rosa stuð.
Rúnar er vanur að fara með strákana í júdó tvisvar í viku en fyrst hann er á Íslandi fer ég með þeim. Ég fer greinilega of sjaldan. Þórarinn er orðinn mjög duglegur, eltir bróður sinn hvert fótmál og gerir allar æfingarnar af einbeitni. Hinir litlu krakkarnir eru reyndar frekar erfið, nenna ekkert að æfa brögðin og eru alltaf eitthvað að kvarta svo að ég reyni að vera nálægt honum, líka til að þýða ef hann skilur ekki hvað hann á að gera. Engar áhyggjur þarf að hafa af Ásþóri en hann skilur mestallt og er mjög góður júdómaður. (Skellti pabba sínum víst um daginn:) Hann er að fara á mót á laugardaginn hérna skammt frá. Í þetta skipti verða fleiri úr hans klúbbi og þjálfarinn líka. Það verður gaman.
22.10.2008 | 22:34
Fréttir
Það er helst í fréttum... (fyrir utan að allir peningar í heiminum eru horfnir og Ísland er orðið verslunarparadís útlendinga) er að við lentum í alvöru íslensku partíi um helgina; með gítarspili, póker og öllum græjum. Heppilegt að Þóra og Pétur búa í svona rúmgóðu húsi. Nóg pláss var fyrir alla að sofna þegar þreytan fór að segja til sín. Við komum svo ekki heim fyrr en um kvöldið þar sem ég var að passa Emblu og Eygló meðan hjúin fóru í golf á sunnudaginn.
Nú er helloween á næsta leiti og allt fullt af grímubúningum, graskerjum, fuglahræðum og nornum. CCP verður með grillbúningapartí á föstudaginn svona til að taka forskot á sæluna. Þóra er svo búin að bjóða strákunum með sér á krakkagrímuball á laugardaginn svo að það verður heilmikið um að vera.
Og það er komið haust hér. Ég er farin að kynda á nóttunni og laufin farin að skipta litum og falla. Þetta eru auðvitað gamlar fréttir á Íslandi þar sem er kominn snjór...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2008 | 21:36
Mynd
Hér er skemmtileg mynd af strákunum og Rúnari síðan í júlí (ennþá á Íslandi). Ég var líka að setja inn nokkrar fleiri myndir síðan í sumar í myndaalbúm hér á síðunni. Er svona að prófa mig áfram með þetta.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2008 | 19:45
Föstudagur
Er að hlusta á 500 bestu rokklög allra tíma að mati Rollings Stones tímaritsins og ég er nokkuð sammála. Þarf líka að reyna að klára þýðinguna sem ég er með; 15 bls um útboð af íslensku yfir á norsku. Þetta tekur mig alltof langan tíma. Þórarinn er að verða frekar leiður á mér held ég. Hann er nú samt búinn að vera ótrúlega duglegur að leika sér meðan ég heng yfir þessu. En góðu fréttirnar eru að ég fæ borgað í norskum krónum. Hvað ætli 4200 nkr séu margar isk núna?
10.10.2008 | 19:29
Júdómót
Um síðustu helgi fórum við með Ásþór á júdómót eftir að hafa skipt á bílnum. Við vorum ekki nógu ánægð með þennan stóra Pontiac (þó aukahlutirnir væru mjög freistandi):) Hann eyddi miklu bensíni (sem er nú ekki alveg það sem maður er að leita að á tímum bensínskorts og himinhás verðs), hlaup í stýrinu sem ágerðist og grunsamleg hljóð í viftunni. Nei hann varð að fara. Í staðinn fengum við okkur lítinn og sætan, sparneytinn Ford Focus. Hann reyndist okkur mjög vel í ferðalaginu um síðustu helgi og fór ca 40 mílur á gallon. ( hmmm... er ekki búin að reikna yfir í km á líter eða lítra á hundraðið... en þetta er mjög ásættanleg eyðsla.)
Waynesville í North Carolina er mjög fallegur bær. Hann stendur upp í skógi vöxnum fjöllum og nokkuð bröttum sumstaðar (kannski ekki mikið þegar maður hefur keyrt um norsku firðina). Við komum þangað klukkan 10 um kvöldið, glorhungruð og fórum beint að borða á fyrsta stað sem við sáum þegar búið var að tjekka inn og hlaupa nokkrum sinnum í kringum mótelið. Strákarnir voru auðvitað alveg búnir á því þegar þeir komust loks í rúmið. Næsta morgun byrjuðum við á að skrá Ásþór á júdómótið og höfðum svo tíma til að skoða okkur aðeins um í bænum. Keppnin byrjaði svo klukkan 11 með yngstu keppendunum. Það var rosa harka í flestum keppendum og mörg fín köst. Ásþóri gekk nokkuð vel. Hann keppti í tveimur flokkum; sínum aldursflokki og svo við eldri krakka. Hann náði þriðja sætinu í þeim seinni en vann allar glímurnar í sínum aldursflokki og fékk gull þar. Ekki ónýtt að koma heim með gull og brons.
3.10.2008 | 15:43
Læknisskoðun og Lewis Black
Það var rosa gaman hjá okkur Rúnari í gærkvöldi en við fórum á sýningu hjá uppistandaranum Lewis Black. Við ætluðum að fara út að borða á undan og Rúnar var búinn að panta borð á einhverjum flottum stað en við vorum svo sein af stað og svo tók langan tíma að finna bílastæði svo að við hættum við að fara þangað en fengum okkur salat í næsta húsi við Fox Theatre. (Ef þið komið einhvern tíma til Atlanta þá verðið þið að fara og skoða þetta hús. Það var byggt sem bíóhús fyrir 1930 og þar eru alls konar ranghalar og leynigöng, skreytt gulli og útflúri. Í aðalsalnum er stórt, gamalt orgel frá tímum þöglu myndanna, þakið í salnum er málað dimmblátt eins og störnuhimin og salurinn er eftirlíking virkis. Þarna eru enn bíósýningar og allskonar aðrar uppákomur.) Black var mjög fyndinn og þetta var skemmtileg sýning. Svo komum við heim og horfðum á endursýningu af kappræðum varaforsetaefnanna Joe Biden og Söru Palin. Palin gerði sig ekki að fífli og gekk nokkuð vel en Joe Biden var konungur kvöldsins. Hann hefur líka gífurlega reynslu og er afar mælskur. Áfram Obama :)
Í gær fór ég líka með Ásþór í læknisskoðun og sprautur. Hann var búin að fá sex bólusetningarsprautur um daginn en þurfti að koma aftur og fá fleiri núna. Honum leið ekki vel eftir allar þessar sprautur síðast og var hálf smeykur núna. Barnalæknir skoðaði hann í bak og fyrir, tekið var blóð- og þvagsýni og ég veit ekki hvað og hvað auk bólusetninganna. Þetta gekk ágætlega. Þeir strákarnir voru svo í pössun hjá Arndísi og Kela um kvöldið.
Á miðvikudagskvöldið vorum við heima hjá Þóru og Pétri og spiluðum askinn með þeim. Rosa gaman. Við ætlum að reyna að gera það aftur á sunnudaginn ef Emblu verður batnað en hún er lasin, litla skinnið. Á eftir erum við svo að fara að keyra til North Carolina og komum heim á morgun.
1.10.2008 | 23:39
Bíllinn í höfn en ekkert bensín
Þá erum við búin að kaupa bíl. Það er algerlga nauðsynlegt tæki á þessum slóðum þar sem almenningssamgöngur eru engar og vegalengdir ógurlegar. Við tókum daginn í gær og rúntuðum (á bílaleigubílnum sem CCP skaffaði okkur) milli bílasala í grendinni og enduðum uppi með bíl sem var allt öðruvísi en við höfðum ætlað í byrjun. Mestan áhuga höfðum við á hybrid-bíl en þeir eru næstum ófáanlegir notaðir og þeir nýju langt fyrir ofan okkar greiðslugetu. Við keyptum því 7 sæta bíl; Pontiac. Bensínnýtingin mætti vera betri en verðið var mjög gott og frábært að keyra hann. Ekki spilltu fyrir aukahlutirnir en hann er til dæmis með innbyggðum DVD spilara. Það verður gaman að fara til North-Carolina á föstudaginn á honum...
Nú þegar bíllinn er kominn mætti bensínskorturinn fara að syngja sitt síðasta. Núna síðustu vikuna hafa flestar bensínstöðvar verið lokaðar meira og minna. Bensínið klárast stuttu eftir að bensínbílarnir koma og svo eru þær tómar í nokkra tíma þar til næsta sending kemur. Ég fór til dæmis í morgun og ætlaði að setja bensín á nýja bílinn (fékk tips frá Rúnari um bensínstöð sem væri opin og ekki með takmarkað magn sem mætti taka). Þegar ég mætti á staðinn var allt tómt, ég fór því á næstu stöð en þar var ekkert heldur, og svo næstu og næstu og næstu ... Ekkert bensín. Bíllinn var orðin alveg tómur og farinn að pípa ískyggilega oft á mig (Fuel low, fuel low, fuel low). Það fór nú að fara um mig, á rúntinum milli bensínstöðva með Þórarinn en ekki einu sinni með síma... (klikkuð). Eftir nokkra stund ákvað ég að skreppa í næstu búð og vonast til að einhvers staðar væri komið bensín þegar ég keyrði til baka. Sem betur fer rættist sú ósk. Við Þórarinn rétt náðum á bensínstöð þar sem hægt var að taka ótakmarkað magn og komumst áfram. Ég var frekar fegin.
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar