sumarfrí og skólabyrjun

Voðalega er langt síðan ég hef skrifað. Sumarfríið hefur greinilega haft víða áhrif.

Þetta var ágætis sumar. Dunduðum okkur hérna í sólinni á milli júdóæfinga og móta hjá strákunum. Fórum svo til Íslands í tvær vikur, komum við á Flórída á heimleiðinni (júdó, strönd, sól, matur, hótel osfrv). Þegar við komum til Atlanta var mikil gleði því Bjarki, Guðborg, Sindri, Jón og Barbro voru komin. Núna eru svo guttarnir byrjaðir í skólanum. Þetta gengur bara vel hjá þeim. Þórarinn er auðvitað bara í fyrsta bekk svo hann er hálf óöruggur með sig enn en það er nú allt að koma. Gott að hafa þá í sama skólanum; bara einn staður að fara á.

Ég er sjálf búin að vera að halda áfram með þýðingarnar og stunda heimilisstörfin af kappi...


Kosningar og júdó í suður Karólínu

Það er nú fyrsti maí í dag og væntanlega frí hjá ykkur íslendingum er það ekki? Ekkert svoleiðis hjá okkur en samt heilmikið um að vera. Það er Spring Carnival í skólanum hjá Ásþóri eftir skóla og svo býður CCP í bíó kl sjö.

Um síðustu helgi var rosa stuð hjá okkur. Á laugardaginn vöknuðum við klukkan sex og lögðum af stað til Suður Karólínu á júdómót. Jökull, sonur Tótu og Reynis var með okkur og 15 krakkar í rútu frá júdóklúbbnum niðri í bæ. Ferðin gekk mjög vel og við komin í sól og hita klukkan 10 á staðinn. Mótið átti að halda í herstöð í bænum Colombia en þegar við mættum í herstöðina kannaðist engin við neitt mót. Rúnar spurðist fyrir hjá einhverjum hátt settum og ég reyndi að hringja í rútuna og komumst þá að því að mótið var ekki fyrr en næsta dag! Því hafði verið frestað á einhverjum tímapunkti og enginn áttað sig á því. Rútan snéri til baka en við ákváðum að gista og vera á mótinu næsta dag. Við fundum hótel sem var með interneti og tölvu til að við gætum horft á kosningasjónvarpið og fórum svo í bíó og á skemmtilegt safn og út að borða. Þegar kom á daginn var reyndar ekkert hægt að horfa á neitt í þessari hóteltölvu. Það vantaði dræver í hana til að hægt væri að horfa á svona videosendingar. Við reyndum að leita að internetkaffihúsi en fundum ekkert. Það endaði með því að við skoðuðum bara mbl.is og ruv og lásum það sem þar var að finna og fórum svo bara að sofa. Lásum svo bara úrslitin næsta morgun. Svolítið leiðinlegt að missa alveg af kosningasjónvarpinu...

Næsta dag var svo mótið. Allir strákarnir kepptu í tveimur flokkum og í stuttu máli sagt gekk þeim mjög vel. Þórarinn fékk silfur og brons, Jökull tvö silfur og Ásþór tvö gull. Jökull og Ásþór þurftu að leggja mikið á sig til að lenda þessum peningum. Þetta voru erfiðar glímur hjá þeim, sérstaklega í seinni flokknum hjá Ásþóri sem urðu síðustu glímurnar á mótinu, um klukkan sex. Við komumst því ekki út úr salnum fyrr en klukkan hálf sjö. Þá var eftir að borða áður en keyrt var heim. Við stoppuðum við á einhverjum stað sem við höfðum ekki heyrt um áður og fengum okkur að borða sem er nú kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þar fékk Rúnar stærsta hamborgara sem ég hef nokkurn tíman séð. Hann hefði dugað einn og sér handa okkur öllum... geðveikur... Á leiðinni heim var rökrætt, sagðir brandarar, sungið og hlegið. Voða stuð á karlpeningnum (nema Þórarni sem svaf mestallan tímann).

Það er komið sumarveður hérna, búið að vera svona 30 stiga hiti alla vikuna. Ég hafði það af að slá garðinn sem var alveg kominn tími á og þvo bílinn sem var líka alveg tímabært.

Ég bið svo bara að heilsa ykkur í bili. Skrifa meira síðar. 

P.S. Ég setti inn örfáar myndir síðan um helgina í nýtt myndaalbúm hérna á síðunni.


Endalaus skemmtun...

Gleðilega páska.

Nú er aldeilis liðinn langur tími síðan ég hef kíkt hérna inn. Fólk var farið að senda mér tölvupósta til að athuga hvort það væri ekki allt í lagi hjá okkur Smile Best að bæta úr þessu.

Það er semsagt allt í þessu fína. 

Pabbi og mamma voru hjá okkur nánast allan marsmánuð. Við héldum upp á afmæli Ásþórs og Rúnars um miðjan mánuðinn og buðum íslendingunum okkar og Ásþór bauð líka tveimur strákum úr bekknum sínum. Ég reyndi svo að fara með þau gömlu um svæðið og keyra þau á merkilega staði en þurfti reyndar að vera komin til baka kl tvö til að ná í Þórarinn svo að við fórum ekkert langt. Við sáum m.a. Hindúahof sem byggt er úr marmara, allt útskorið og skreytt, fórum í dýragarðinn, á sögusafn, fórum upp á Stone Mountain og skoðuðum garðinn, safnið og gömlu húsin þar hjá, litum á elsta dómhús Georgiu, löbbuðum um og fórum í Farmers market. Svo fóru þau nokkrum sinnum í bowling og aðeins í búðir. Seinnipart dagsins dottuðu þau oft á tíðum hérna í sófanum, spiluðu kapal í tölvunni eða skrifuðu í dagbókina. Þau eiga samt greinilega eftir að koma aftur því að ég var ekki búin að sýna þeim allt sem ég ætlaði eins og Fox leikhúsið og fleira. Þau skemmtu sér mjög vel og það var ósköp notalegt að hafa þau hérna. Þau fóru síðan frá mér að morgni 30. mars og flugu heim 1. apríl.

Helgina eftir að þau fóru var þemapartí á vegum CCP sem við drifum okkur í. Það áttu allir að mæta í burlesque búning. Við vorum nú ekki að taka það of hátíðlega en keyptum samt pípuhatt á Rúnar og háa hanska á mig. Þetta var skemmtilegt.

Svo var komið páskafrí. Strákarnir voru mjög glaðir að fá frí; geta sofið út eða vaknað og farið beint í sjónvarpið eða tölvuna. Rúnar fékk reyndar ekki frí strax. Á þriðjudaginn var júdó niðri í bæ og ég ákvað að fara með. Tóta og Reynir buðu okkur í mat eftir tímann sem endaði með því að við spiluðum trivial pursuit fram á nótt og ég vakti svo enn lengur að spjalla við Rúnu, mömmu hans Reynis. Næsta dag vorum við stelpurnar búnar að ákveða að hittast heima hjá einni okkar sem var að skipta um húsnæði og fara svo í Piedmont Park (Mennirnir fóru auðvitaði í vinnuna) Þetta var bara örstutt frá Tótu svo við urðum bara samferða henni og vorum svo í garðinum meiripart dagsins. Klukkan var því orðin átta þegar við komum loksins heim eftir skemmtilega daga.

Friggi og Brynja stóðu svo fyrir því að leigja bústað uppi í Smokey Mountains yfir páskana. Þó að hugmyndin kæmi seint upp slógum við til ásamt flestum hinum íslendingunum og drifum okkur. Þessi staður ,Pigeon Forge, er ca 4 tíma í burtu. Jón Helgi kom með okkur og við keyrðum þangað í rigningu og þrumum og eldingum með viðkomu í matvörubúðum (þar sem Jón hafði tekið að sér að undirbúa mat). Þóra og Pétur komust því miður ekki þar sem stelpurnar og Þóra eru með flensuna og búnar að vera hundveikar. Þetta var mjög fín páskahelgi í skemmtilegu umhverfi, með leikjum og heitum potti, spileríi og syngeríi og endalaust af mat...  (og drykk)... Við keyrðum svo heim í gær, páskadag, í frábæru veðri. Á leiðinni sáum við m.a. tvo villta birni í skóginum. Eins og margir aðrir sem leið áttu um, stoppuðum við og reyndum að ná myndum en það var erfitt því ekki var óhætt að fara of nálægt. Einnig stoppuðum við á stórfínum útsýnisstað uppi í fjöllunum og á verndarsvæði indíána sem er á leiðinni.

Í morgun var svo aftur komin rigning og strákarnir fóru í skólann og Rúnar í vinnuna. Þeir voru nú frekar þreyttir eftir fríið, elskurnar, en úr því verður bætt í kvöld. Ásþór er að fara í samræmd próf núna í vikunni en þau eru tekin í nánast öllum greinum og í öllum bekkjum.

Jæja, bið að heilsa ykkur öllum í bili.


Foreldraheimt

Nú eru pabbi og mamma komin. Ég fór niður í bæ í gærkvöldi og náði í þau á Greyhoundrútustöðina. Ég þurfti auðvitað að villast aðeins á leiðinni (þrátt fyrir GPS tækið) enda er ég ekki mikið á ferðinni í þessum hluta borgarinnar. Svo var alls konar dúbíus lið á leiðinni frá bílastæðinu og að stöðinni og á leiðinni til baka með dótið fóru menn að tala við okkur og einn fylgdi okkur alveg að bílnum. Mér leist nú ekkert á það, var mest hrædd um að einhver væri að ræna úr bílnum mínum á meðan eða einhver ætlaði að nappa veskjunum okkar... en það gerðist nú ekki (var kannski aðeins of tortryggin). Við villtumst svo aftur á leiðinni til baka en það var nú bara út af því að á tveimur stöðum voru lokaðar götur. Við vorum svo komin heim klukkan tólf og kjöftuðum til tvö (um pólitík og praktísk atriði). Þau höfðu haft það mjög gott í Flórída; farið í Seaworld, Hús á hvolfi, risakringlu, skoðað bæinn í strætó og bílaleigubíl, borðað perúskan og indverskan mat og bandarískan hótelmorgunmat. Bara rosa fínt.

Svo erum við að fara á eftir í grill á CCP og morgun á íslendingamót.


Veikindin á útleið og foreldrarnir á innleið

Þá eru pabbi og mamma í Flórída og koma til mín með Greyhound bus á morgun. Þau flugu til Orlando á mánudaginn og ætla að vera þar í þrjár nætur. Það er nóg að skoða og skemmta sér við þar en verður líka gaman að fá þau hingað.

Annars eru strákarnir báðir búnir að vera lasnir núna, voru með streptókokka. Ásþór fór í dag í skólann en Þórarinn fer á morgun í fyrsta skipti síðan fyrir helgi. Reyndar var frí í öllum skólum á svæðinu og bara stóru svæði á mánudaginn vegna þess að það var snjór. Fyrir okkur íslendingana var þetta nú ekki mikill snjór en hann lá í þrjá daga sem er nú mjög mikið á þessum stað. Georgíubúar kunna auðvitað heldur ekkert að haga sér í hálku eða snjó. Malbikið er miklu sléttara en heima (og auðvitað engin nagladekk).

Svo er ég að verða búin að þýða nýja spilið okkar yfir á íslensku. Við skrifuðum það á ensku þar sem við erum að vonast til að geta fundið útgefanda hér. Nú erum við komin með samning við fyrirtæki á Íslandi sem ætlar að sjá um myndir og uppsetningu. Það er frábært. Rekur líka á eftir okkur að klára alveg.

Jæja, best að fara að hita mat handa liðinu, (þau þurfa auðvitað að BORÐA).

 

 


Hitt og þetta

Jæja ekki linnir fréttunum frá Íslandi. Við horfum miklu frekar á RúV í gegnum tölvuna (sem reyndar er tengd við sjónvarpið) heldur en einhverja af þessum hundrað sjónvarpsrásum sem við höfum aðgang að hér. Það kemst ekkert í hálfkvisti við íslensku fréttirnar. Ég vona bara að þeir ætli ekki að byggja upp sama kerfi og var. Það er algerlega nauðsynlegt að hætta þessari peningaprentun sem bankarnir og bréfabraskararnir hafa verið að stunda. Það er alveg öruggt að fleiri krónur skapa ekki meiri verðmæti heldur endar með því að hver króna fær stendur fyrir minni hluta af alvöru verðmætum = verðbólga.

Annars er núna júdótímabil mikið í gangi. Rúnar fann annan júdóklúbb sem er niðri í bæ og æfir þriðjudaga og fimmtudaga sem strákarnir eru byrjaðir að æfa í líka. Svo nú er júdó hjá þeim fjórum sinnum í viku. Auk þess eru júdómót núna hverja helgina á fætur annari. Um síðustu helgi keyrðum við norður til Nashville, Tennessee á mót. Við lögðum af stað eldsnemma um morguninn og keyrðum aftur til baka um kvöldið. Þetta var nú frekar strembið þar sem það tekur fjóra og hálfan tíma að keyra aðra leiðina. Ekki bætti úr skák að mótið var þannig skipulagt að við þurftum að bíða lengi eftir glímunum hans Ásþórs og komumst ekki út úr íþróttahúsinu fyrr en eftir kl sex.

Þórarinn keppti líka í fyrsta skipti. Hann tapaði reyndar öllum glímunum en stóð sig engu að síður vel. Núna um næstu helgi svo aftur mót en í þetta sinn hérna í Atlanta.

Nú erum við að leita að leigjanda í risið okkar í Mávahlíðinni. Vonandi að það gangi fljótt og vel. Það er enn allt í stoppi varðandi undirritun eignaskiptasamningsins þar. Ekkert nýtt hefur gerst í því í bili sem er mjög slæmt því það er eitt af skilyrðunum sett eru í byggingarleyfinu að nýjum samningi verði þinglýst eins fljótt og hægt er. Auk þess þarf hann að vera kominn í gegn til að viðkomandi nýji leigjandi geti fengið húsaleigubætur ef hann hefur áhuga á því. Vona bara að Ása sjái að sér og skrifi undir.

Jæja bið að heilsa ykkur öllum.


Venjulegur dagur í febrúar

Nú er bara kominn febrúar. Það er búið að vera svo mikið að gera að vera heimavinnandi að ég hef bara aldrei tíma til að blogga. Dagarnir byrja venjulega á því að ég vakna (ekki ósvipað og hjá öðrum) klukkan sjö og fer að vekja liðið og drífa í það morgunmat. Þórarinn þarf að mæta milli 7.30 og 7.45 svo að við förum yfirleitt bara öll af stað og ég skutla öllum á sína staði; fyrst Þórarni, svo Ásþóri og síðast Rúnari. Þá er ég komin heim svona tíu mínútur yfir átta og get farið að borða sjálf og gera heimilisstörf eða bara vafra á netinu. Flesta daga fer ég í ræktina klukkan hálf tíu og oft í heimsókn til Þóru eftir það. Tvisvar í viku hittumst við Þóra og Arndís og syngum saman í hádeginu. Það er rosa gaman. Svo þarf að ná í Þórarinn klukkan 14.15 og Ásþór kemur heim um klukkan þrjú. Þá tekur við kaffitími og heimanám og tvisvar í viku eru strákarnir á júdóæfingum.  

Þórarinn var að gefa mér ofurkrafta. Hann langaði til að ég lyfti sér upp með fætinum en ég gat það ekki svo að hann lánaði mér bara af sínum. Hann var heima í dag af því að hann var með hita í gær. Hann var samt hitalaus í morgun.

Ásþór er að prófa að fara á júdóæfingar hjá öðru félagi niðri í bæ í dag og á fimmtudag.Það verður gaman að sjá hvernig honum líkar þar.

Jæja læt þetta duga í bili.


janúardagar

Í gær fóru tengdapabbi og tengdamamma aftur til Íslands og dagarnir farnir að ganga sinn vanagang. Þetta er nú búið að vera mjög notalegur tími og ég held að þau hafi skemmt sér mjög vel. Afi búinn að kenna Ásþóri fjölskylduspilið kasínu (og strákurinn búinn að rústa þeim gamla) sem og tveggja manna vist og rússa. Svo er hann búinn að setja upp bloggsíðu. Amma búin að fara í nokkrar búðir, lesa fyrir krakkana og sauma út með okkur Þóru. Og maturinn... Það hefur verið veisla svona annan hvern dag síðan þau komu, annað hvort hjá okkur eða Pétri og Þóru. 

Í gær var ég i einhverju letikasti og las bara bók. Þetta var krimmi um sænskan blaðamann. Bara mjög fín. Í dag er ég búin að fara í ræktina og ætla svo að fara í heimsókn á eftir þegar strákarnir eru komnir heim. Þórarinn er búin að vera að tala um að hitta Emilíu vinkonu sína alveg síðan hún fór til Íslands fyrir jólin og nú ætla ég að láta verða af því að leyfa þeim að hittast.

Ásþór þarf að búa til hljóðfæri fyrir tónlistartímann á fimmtudaginn og við þurfum að vinna í því í kvöld. Hann var að spá í að nota glerflöskur með mismiklu vatni í og slá í þær með skeið. Það gæti komið vel út.

Bið að heilsa ykkur öllum í bili. 


2009 (o my god)

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla öllsömul.

Er það ekki merkilegt að það sé komið árið 2009 og 8. janúar á morgun... Það er nú langt síðan ég þurfti að reikna í hvert skipti sem afmælið mitt nálgaðist og núna reiknaði ég tvisvar (til að vera viss). Er tíminn ekki aðeins of fljótur á sér?

Annars er allt gott að frétta hér. Tengdaforeldrarnir komu hingað þann 27. des og þá voru nú bara jólin aftur. Þau komu með pakka frá Möggu og Jóni og við geymdum pakkana sem þau höfðu sjálf sent með okkur í sumar svo að þetta var heilmikið. Við vorum í mat hjá Pétri og Þóru og fengum önd sem var rosalega góð og sósan og meðlætið allt frábært. 

Annars höfum við verið meira og minna hjá þeim eða þau hjá okkur yfir hátíðarnar. Síðasta sunnudag höfðum við safnadag. Við byrjuðum á að fara á King Tut sýninguna en þar er m.a. til sýnist fjársjóður sem fannst í grafhýsi Faraósins Tutankamum. Þarna voru gull og gersemar sem og fróðleikur um fornegypta. Eftir það fórum við í sædýrasafnið sem er rosalega stórt og flott. Þar eru stærstu "fiskabúr" í heimi og margir sýningarstaðir með alls kyns fiskum og vatnadýrum allt frá krossfiskum og sæhestum til hákarla og krókódíla. Þar sem allir voru orðnir þreyttir og svangir eftir þetta buðu tengdó okkur öllum út að borða á frábæran Mexikóskan stað.

Þórarinn fór auðvitað aftur í forskólann sinn nú á nýja árinu. Það byrjaði nú ekki gæfulega því hann hafði víst grátið meira eða minna allan fyrsta daginn. Kom heim rauðeygður og daufur. Var að bíða eftir mömmu sinni og fannst hann ekki geta talað við hina krakkana. Við reyndum auðvitað að peppa hann upp og næsti dagur var miklu betri. Rúnar talaði líka við kennarana og bað þær um að hjálpa honum að eiga samskipti við hina krakkana. Þegar ég kom að ná í hann í gær sagði kennarinn hans að hún hafi ekki leyft honum að sitja einum við borð eins og hann virtist vilja. Og það virkaði vel. Í dag, sem er þriðji dagurinn eftir jól, hafði hann ekki einu sinni litið á klukkuna...

Skólinn er auðvitað líka byrjaður aftur hjá Ásþóri og ég held að honum finnist það fínt.

Í gær fengum við svo beina útsendingu á skype frá því þegar Jón og Barbró og krakkarnir tóku upp pakkana frá okkur. Kassarnir sem við sendum í byrjun desember lentu nefnilega á Írlandi vegna mistaka starfsmanns á pósthúsinu hérna. Mikið var ég glöð þegar þeir voru komnir á réttan stað.

Jæja læt þetta duga í bili. Bið að heilsa. 

 


Þriðjudagur 16. desember

Jæja jæja, tíminn líður.

Þórarinn fór í fyrsta skipti í nýja leikskólann í dag. Þau vildu ekkert að ég væri með honum svo að við fórum bara með hann kl hálf átta og ég náði svo í hann kl 14:15. Ég var auðvitað með símann í hendinni allan tímann ef þau skyldu hringja. Dagurinn hafði gengið í meginatriðum vel nema þegar þau áttu að fara út þá fór minn að skæla og langaði heim en þá var líka bara smá stund þangað til dagurinn væri búinn. Hann sagðist ekki hafa viljað leika við krakkana og vildi bara sitja við borðið. Það verður spennandi að sjá hvernig hann verður á morgun. Svo eru þetta bara þrír dagar núna og þá er komið jólafrí. Hann byrjar svo aftur þann fimmta jan.

Annars er nú aðeins að verða jólalegt hjá okkur; komnar seríur og kerti. Svo er ég búin að gera tvö smákökudeig sem bíða eftir að ofninn verði laus.


Næsta síða »

Höfundur

Rúnar og María
Rúnar og María
Þetta blogg er á vegum Maríu Huldar og Rúnars Þórs sem eru stödd í Atlanta í Bandaríkjunum á vegum CCP.

Nýjustu myndir

  • risahamborgari
  • medalíudrengir
  • verðlaunapeningar
  • Þórarinn og Ásþór úti á leikvelli
  • Strákarnir í niðurpökkun

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband